Íslenski boltinn

Vilja að Arna elti stóru systur: „Þær eru svaka­legir íþrótta­menn“

Sindri Sverrisson skrifar
Arna Eiríksdóttir fagnar með liðsfélögum sínum eftir mark gegn FHL um helgina.
Arna Eiríksdóttir fagnar með liðsfélögum sínum eftir mark gegn FHL um helgina. vísir/Guðmundur

Gæti Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, átt eftir að feta í fótspor systur sinnar Hlínar með því að komast út í atvinnumennsku og í A-landsliðið? Sérfræðingarnir í Bestu mörkunum eru sannfærðir um það.

Arna er aðeins 22 ára en lék sinn 100. leik í efstu deild á sunnudaginn og hélt upp á áfangann með því að skora tvö mörk í 3-1 sigrinum gegn FHL í Kaplakrika.

„Er hún næsta Hlín Eiríks? Er hún að fara í atvinnumennsku?“ spurði Helena Ólafsdóttir, stjórnandi Bestu markanna, fullmeðvituð um það að þær Arna og Hlín spila þó á sitt hvorum enda vallarins. Umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin - Arna Eiríks gæti náð afar langt

„Þær eru svakalegir íþróttamenn og hugarfarið alveg upp á ellefu hjá þeim öllum fjórum systrunum,“ svaraði Mist Rúnarsdóttir og hélt áfram:

„Af hverju ætti Arna ekki að geta líka farið í atvinnumennsku? Hún er búin að vera frábær miðvörður, byrjaði ung að spila og maður man eftir henni bara sem krakka í HK/Víkingi. Hún gerir hlutina virkilega vel.“

„Ég vil sjá hana fara í atvinnumennsku,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir. „Mér finnst hún vera orðin meiri leiðtogi. Það er mjög mikið „presence“ í henni,“ sagði Bára.

„Hún er orðin agaðri,“ skaut Mist þá inn í og Bára hélt áfram:

„Já, mikið agaðri. Hún hefur stundum verið svolítið villt í sínum aðgerðum. En þetta er stelpa sem á að vera að horfa á það að fara í atvinnumennsku og verða A-landsliðsleikmaður. Hún hefur alla burði til þess.“


Tengdar fréttir

„Ég á nokkuð mörg mörk miðað við hafsent“

Miðvörðurinn og fyrirliðinn Arna Eiríksdóttir skoraði tvö mörk í 3-1 sigri FH gegn nýliðunum FHL. Arna segist nokkuð vön því að skora þó þetta hafi verið hennar fyrsta mark í tæp tvö ár, líklega var fyrsta markið líka hennar fyrsta mark úr langskoti. Hún og aðrir leikmenn FH hafa þurft að aðlaga varnarleikinn vegna meiðsla miðvarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×