Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en hefur enn ekki verið birtur. Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, sem flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins, staðfestir niðurstöðuna í samtali við Vísi en Mbl.is greindi fyrst frá.
Ákæruvaldið fór fram á að Steina yrði sakfelld fyrir manndráp og gerð refsing en til vara að hún yrði sakfelld fyrir manndráp af gáleysi. Dagmar Ösp segir ákvörðun um mögulega áfrýjun málsins vera í höndum Ríkissaksóknara og að hún vilji ekki úttala sig um það hvort henni þyki niðurstaða dómsins rétt.
Hellti drykk upp í konuna svo hún lést
Þessi niðurstaða er sú önnur í málinu en Steina var upphaflega sýknuð í héraði af ákæru um að hafa valdið dauða konu með geðklofa á sextugsaldri á geðdeild Landspítalans 16. ágúst árið 2021. Hún var ákærð fyrir manndráp í opinberu starfi.
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi sannað að hún hefði valdið dauða sjúklingsins með því að hella næringardrykk upp í hann þar til hann kafnaði. Steina var sýknuð þar sem ásetningur hennar til manndráps þótti ekki sannaður.
Fengu ekki færi á að fjalla um manndráp af gáleysi
Í úrskurði Landsréttar í málinu kom fram að ef héraðsdómur teldi vafa leika á því að Steina hefði haft ásetning til að svipta sjúklinginn lífi, svo að fullnægt væri huglægum refsiskilyrðum 211. greinar almennra hegningarlaga, hefði dóminum borið að gefa sakflytjendum færi á að flytja málið út frá því hvort heimfæra mætti ætlað brot hennar undir 2. mgr. 218. gr. laganna, ellegar 215. gr. þeirra.
Það hefði ekki verið gert og yrði ekki leyst úr því fyrir Landsrétti hvort málið yrði dæmt eftir öðrum refsiákvæðum en í ákæru greindi, enda myndi slík úrlausn ekki fela í sér endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms.
Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur án kröfu og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar á ný og fella síðan á það efnisdóm