Innlent

Hyggjast fljúga þotunni yfir Reykja­vík í há­deginu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, við móttöku Airbus-þotunnar í Hamborg í dag.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, við móttöku Airbus-þotunnar í Hamborg í dag. Egill Aðalsteinsson

Icelandair fékk í dag afhenta fyrstu Airbus-þotuna í sögu félagsins. Stefnt er að því að hún fljúgi yfir Reykjavík við komuna til Íslands í hádeginu á morgun, þriðjudag 3. desember.

Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá afhendingu flugvélarinnar í Airbus-verksmiðjunum í Hamborg í dag. Afhendingarathöfnin hófst með ræðum og undirskrift þjónustusamnings milli Airbus og Icelandair um viðhald og varahluti.

Því næst var boðið upp á kynnisferð um Airbus-verksmiðjurnar þar sem sjá mátti samsetningu á A321-flugvélinni. En svo var komið að því að afhenda vélina til Icelandair. Það gerist aðeins tuttugu mánuðum eftir að félagið tilkynnti að það hefði valið Airbus fram yfir Boeing.

Hópurinn frá Icelandair sem tók við þotunni frá Airbus-verksmiðjunum í Hamborg í dag.Egill Aðalsteinsson

„Þetta er stór dagur fyrir Icelandair að taka við fyrstu Airbus-vélinni í 87 ára sögu félagsins,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, við móttöku þotunnar.

„Þessar vélar eru að taka við af 757-vélunum, sem hafa reynst okkur mjög vel. Það er búið að vera mikil vinna í undirbúningi. Nú er þetta að raungerast. Fyrsta flugið verður svo 10. desember til Stokkhólms,“ sagði Bogi.

Icelandair á von á næstu Airbus-vél í febrúar, sú þriðja kemur í mars og sú fjórða fyrir næsta sumar.

Ráðamenn Airbus sögðu þetta aðeins byrjunina á langtíma viðskiptasambandi við Icelandair.

Kári Kárason flugstjóri flýgur nýju þotunni í fyrsta fluginu til Íslands.Egill Aðalsteinsson

Áætlað er að flugvélin lendi í Keflavík í hádeginu á morgun en flugstjóri í þessu fyrsta flugi verður Kári Kárason.

„Þetta er búið að vera gríðarlega skemmtilegt. Vélin er frábær. Ég flaug henni um síðustu helgi og prófaði allt sem þurfti að prófa. Og við hlökkum bara til flugsins á morgun.“

-Ætlið þið að fljúga yfir Reykjavík?

„Já. Við ætlum að fljúga yfir Reykjavík og fara yfir Reykjavíkurflugvöll og sýna borgarbúum þennan glæsilega farkost,“ sagði Kári.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hér má sjá þotuna fljúga í fyrsta sinn þann 19. nóvember síðastliðinn:


Tengdar fréttir

Airbus-þota Icelandair flaug í fyrsta sinn í dag

Fyrsta Airbus-þota Icelandair fór í sitt fyrsta reynsluflug frá Airbus-verksmiðjunum í Hamborg í Þýskalandi í dag. Flugvélin, af gerðinni Airbus A321neo, hóf sig til flugs laust eftir hádegi að staðartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×