Handbolti

Ómar Ingi ekki með á HM

Aron Guðmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon í leik með Magdeburg
Ómar Ingi Magnússon í leik með Magdeburg Getty/Javier Borrego

Íslenski landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon mun ekki geta tekið þátt á HM með íslenska landsliðinu í næsta mánuði sökum meiðsla sem hann varð fyrir í leik með Magdeburg um síðastliðna helgi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Magdeburg þar sem segir að meiðsli Ómars á hægri ökkla valdi því að hann verði frá í um það bil þrjá mánuði. Hann mun þó ekki þurfa að fara í aðgerð vegna meiðslanna.

Ómar meiddist strax í annarri sókn Magdeburgar er liðið vann níu marka sigur gegn Bietigheim. Ómar sótti þá að vörn gestanna og lenti greinilega illa og snéri upp á hægri ökklann á sér. Hann var borinn af velli og kom ekki meira við sögu í leiknum.

Ísland hefur leik á HM þann 16. janúar næstkomandi þegar liðið mætir landsliði Grænhöfðaeyja.

Ómar hefur verið einn besti leikmaður heims undanfarin ár og þarf því ekki að fjölyrða um hversu mikill skellur þetta er fyrir Ísland í aðdraganda HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×