Síðastliðinn áratug eða svo hafa evrópskir verðbréfamarkaðir átt undir högg að sækja, sérstaklega samanborið við þann bandaríska. Þannig hefur nýskráningum félaga fækkað, ávöxtun hlutabréfa hefur verið slök og er nú svo komið að evrópskir útgefendur eru í síauknum mæli farnir að horfa til bandaríska verðbréfamarkaðarins í stað þess evrópska þegar kemur að því að afla fjármagns. Þunglamalegu regluverki Evrópusambandsins hefur að hluta til verið kennt um þessa þróun. Til að reyna að bregðast við uppkominni stöðu var hinn 14. nóvember sl. birt í stjórnartíðindum Evrópusambandsins nýtt regluverk, svokallaðar skráningarreglur (e. the Listing Act). Yfirlýst markmið skráningarreglnanna er að einfalda reglufylgni og auka aðdráttarafl fjármagnsmarkaða Evrópusambandsins en á sama tíma viðhalda fjárfestavernd og heilleika markaðarins.
Skráningarreglurnar fela í sér breytingar á grundvallargerðum Evrópusambandsins sem snerta fjármagnsmarkaðinn, þ.e. markaðssvikareglugerðinni, lýsingarreglugerðinni og svokallaðri MiFID II tilskipun. Helstu breytingar regluverksins eru eftirfarandi:
Markaðssvikareglugerðin
- Stærsta breytingin mun felast í því að útgefendur munu ekki þurfa að birta innherjaupplýsingar án tafar um einstaka þrep í þrepaskiptu ferli (til dæmis viðræðum um kaup og sölu félaga eða uppgjörsvinnu) heldur verður heimilt að birta upplýsingarnar þegar ferlinu lýkur endanlega.
- Gert skýrt að reglurnar um markaðsþreifingar eru valkvæðar og að ekki sé skylt að fylgja þeim.
- Tilkynningar sem birta þarf opinberlega um endurkaupaáætlanir gerðar einfaldari.
- Undanþága um að ekki þurfi að birta viðskipti stjórnenda með fjármálagerninga sem eru að fjárhæð 5.000 evrur hækkuð í 20.000 evrur (einstaka ríki geta lækkað í 10.000 evrur eða hækkað í 50.000 evrur).
- Heimildir til álagningar stjórnvaldssekta gerðar hlutfallslegar m.t.t. stærðar útgefanda til að bregðast við gagnrýni á miklu umfangi sekta á smáa útgefendur.
Lýsingarreglugerðin
- Núverandi undanþágu frá gerð lýsingar fyrir skráningu og útboð nýrra verðbréfa sem á 12 mánaða tímabili eru innan við 20% af þegar skráðum verðbréfum sama útgefanda er breytt og undanþágumörkin hækkuð í 30%.
- Undanþága frá birtingu útboðslýsinga fyrir lítil útboð hefur verið hækkuð úr 8 milljónum evra í 12 milljónir evra á 12 mánaða tímabili. Aðildarríki geta breytt viðmiðunarmörkum enn frekar innan skilgreindra marka.
- Stöðluð snið fyrir útboðslýsingar gefin út sem miða að því að auka skýrleika fyrir fjárfesta og einfalda gerð lýsinga fyrir útgefendur. Hlutabréfalýsingar munu einnig hafa lengdarmörk upp á 300 blaðsíður, að frátöldum samantektum og innbyggðum tilvísunum.
- Útgefendur þurfa ekki lengur að birta viðbætur til að uppfæra fjárhagsupplýsingar í grunnlýsingum en geta gert það af fúsum og frjálsum vilja.
MiFID II/MiIFIR
- Innleitt verður gagnaeftirlitskerfi yfir markaðspantanir til að bæta eftirlit með mörkuðum með umtalsverða starfsemi yfir landamæri.
- Reglur um greiningar einfaldaðar til að fjölga greiningum á smáum og meðalstórum fyrirtækjum.
Stór hluti framangreindra breytinga tekur gildi í Evrópusambandinu á morgun, 4. desember. Hluti breytinganna tekur svo gildi með útgáfu tæknistaðla og annarra gerða á næstu 15-18 mánuðum.
Framangreindar gerðir Evrópusambandsins hafa allar verið innleiddar í íslensk lög. Mun hið nýja regluverk því hafa töluverð áhrif á útgefendur á íslenska verðbréfamarkaðinum þegar það hefur verið innleitt og tekið gildi hérlendis. Til að tryggja hlítni við hinar nýju reglur og til þess að eiga þess kost að nýta sér þær tilslakanir sem þær fela í sér er mikilvægt fyrir útgefendur að kynna sér breytingarnar vel.
Höfundur er lögmaður og eigandi á LEX lögmannsstofu.