Handbolti

Ómar með þrjú slitin lið­bönd: „Lík­legast er HM ekki mögu­leiki“

Aron Guðmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon í leik með íslenska landsliðinu
Ómar Ingi Magnússon í leik með íslenska landsliðinu VÍSIR/VILHELM

Ómar Ingi Magnús­son, lykilmaður í ís­lenska lands­liðinu í hand­bolta sem og stór­liði Mag­deburgar, segir því fylgja mikil von­brigði og svekk­elsi að hafa meiðst illa í síðasta leik með þýska liðinu. Að öllum sé það ekki séns fyrir hann að ná heilsu fyrir komandi Heims­meistaramót.

Fyrr í dag stað­festi Mag­deburg að Ómar yrði að öllum líkindum frá í þrjá mánuði sem Ómar segir í sam­tali við Vísi að sé raunin í versta falli. Í leik með Mag­deburg um síðastliðna helgi lenti Ómar illa eftir að hafa stokkið upp í sókn. Hann sleit þrjú liðbönd í hægri ökkla auk þess að hafa hlotið beinmar.

Í sam­tali við Vísi í há­deginu lét Snorri Steinn Guðjóns­son lands­liðsþjálfari hafa það eftir sér að hann úti­lokaði ekki þátt­töku Ómars á komandi heims­meistaramóti í janúar á næsta ári þar sem að Ísland á fyrsta leik 16. janúar. Ómar fer þó ekki í felur með að það verður mjög erfitt fyrir hann að verða leik­fær fyrir mótið.

„Það lítur út fyrir að það verði mjög erfitt að ná því,“ segir Ómar Ingi í sam­tali við Vísi. „Ég á eftir að fá aðeins betri greiningu á málinu en lík­lega er það ekki mögu­leiki.“

„Það sem að mér hefur verið tjáð er að í versta til­felli verð ég frá í þrjá mánuði. Það mun bara koma í ljós hvernig endur­hæfingin gengur. En ég veit ekki hvernig þetta verður með HM. Lík­legast er þetta ekki séns. Annars er ég ekki nógu vel að mér í þeim efnum.“

Það fylgi því gríðar­legt svekk­elsi enda augun verið lengi á þessu stór­móti.

„Gríðar­legt svekk­elsi. Að geta ekki verið með. Mikil von­brigði. Maður hefur verið með þetta lengi í hausnum, að reyna að vera í góðu standi fyrir HM í janúar. Þetta eru því gríðar­leg von­brigði.“

Og áhyggjurnar fóru að gera vart um sig um leið og Ómar varð fyrir meiðslunum inn á vellinum.

„Þetta var það vont að ég viss að þetta myndi þýða fjar­vera frá hand­bolta­vellinum. Vonaðist þó til þess að þetta væru kannski að há­marki þrjár til fjórar vikur. En það var fljótt sagt við mig að þetta yrði að öllum líkindum aðeins meira en það.“

Slæmar fréttir að fá. Ekki bara fyrir Ómar, heldur einnig ís­lenska lands­liðið sem og lið Mag­deburgar sem reiða sig mikið á Selfyssinginn. Hann hefur hins vegar ekki áhyggjur af komandi stór­móti hjá lands­liðinu þó svo að hann muni að öllum líkindum ekki vera með á HM.

„Við erum með helvíti marga góða leik­menn. Ég hef ekki miklar áhyggjur. Þeir munu sjá um þetta og spila vel. Mér finnst liðið í fínu standi. Það er mikil til­hlökkun fyrir mótinu. Ég held að menn mæti vel fóku­seraðir og klárir í slaginn. Hef engar áhyggjur af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×