Fótbolti

Fékk ekki að fara inn á út af pínlegu klúðri

Sindri Sverrisson skrifar
Lucy Bronze var tilbúin að koma inn á en svo mátti hún það ekki.
Lucy Bronze var tilbúin að koma inn á en svo mátti hún það ekki. Getty/Carl Recine

Einhver hefur gert afar pínleg mistök sem bitnuðu á Lucy Bronze og enska landsliðinu í fótbolta í gærkvöld, í vináttulandsleik við Sviss á Bramall Lane í Sheffield.

Bronze, sem er einn besti varnarmaður heims, var búin að gera sig klára í að koma inn á sem varamaður þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Þessi 33 ára bakvörður var komin úr upphitunarfötunum og tilbúin á hliðarlínunni en svo kom í ljós að hún mætti ekki spila. Í staðinn kom Jess Carter inn á, og Bronze þarf að bíða eftir því að spila sinn 128. landsleik.

„Já, það kom í ljós þarna að hún var ekki á listanum,“ sagði Sarina Wiegman, þjálfari enska landsliðsins, við ITV Sport.

„Það voru sem sagt gerð mistök, óheppileg mannleg mistök, og þau komu í ljós þarna,“ sagði Wiegman.

„Við vildum samt að hún fengi að koma inn á en því miður var það ekki hægt svo þetta var mjög svekkjandi – auðvitað mest fyrir hana sjálfa – en við gátum engu breytt,“ sagði Wiegman.

Þessi furðulegu mistök komu ekki í veg fyrir sigur Englands, 1-0, með marki frá Grace Clinton. Áður hafði England gert markalaust jafntefli við Bandaríkin.

Enska landsliðið undirbýr sig líkt og það íslenska fyrir Evrópumótið í Sviss næsta sumar, þar sem England hefur titil að verja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×