Það vakti hörð viðbrögð í síðasta mánuði þegar Íslandsbanki og Arion banki ákváðu að hækka vexti á verðtryggðum útlánum í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans.
Breki Karlsson gagnrýndi vaxtahækkanirnar harðlega í fréttum á sínum tíma.
„Það má eiginlega segja að bankinn sé að stela til baka hluta af ávinningnum af vaxtalækkun Seðlabankans,“ sagði Breki í fréttum 20. nóvember.
Bankarnir útskýrðu hækkanir með því að raunstýrivextir eða bil milli verðbólgu og stýrivaxta, væru enn of háir og því dýrt að fjármagna verðtryggð útlán.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur hins vegar að bankarnir hafi farið of geyst í vaxtahækkununum.
„Mér fannst þeir vera heldur bráðir á sér. En ég veit að þetta þétta raunvaxtaaðhald sem við erum að knýja fram leiðir til þess að þeir eru að taka tap á verðtryggðum lánum,“ segir hann.
Þurfi jafnvægi milli inn- og útlána
Már Wolfang Mixa dósent við Háskóla Íslands benti á í fréttum 20. nóvember að bankarnir gætu leyst fjármögnunarvanda sinn vegna útlána í slíkri stöðu.
„Einföld leið til að minnka sveifluna er að miða húsnæðislán við langtímalán ekki skammtímalán,“ sagði Már.
Ásgeir segir einnig mikilvægt að fjármögnun bankanna sé í takt við útlán þeirra.
„Það má velta fyrir sér hvort bankarnir hefðu átt að auka verðtryggð útlán svo hratt án þess að hafa hugað að verðtryggðri fjármögnun,“ segir Ásgeir.
Sljákka mögulega á kröfum vegna fyrstu kaupa
Seðlabankinn hefur síðustu ár hert skilyrði til lántöku fasteignalána. Ásgeir segir að mögulega verði sljákkað á þeim á næstunni.
„Eitt af því sem kæmi alveg til greina er að lækka væri kröfur á fyrstu kaupendur um leið og við teljum að skilyrðin til þess séu komin,“ segir hann.
Í umræðu um háa raunstýrivexti hefur verið gagnrýnt að næsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans sé ekki fyrr en í febrúar. Ásgeir segir ekki koma til greina að flýta fundinum.
„Það hefur ekki komið til greina. Peningastefnunefnd hefur ákveðna fundadagskrá og það er ekkert sem hefur komið fram sem verður til þess að við röskum þeirri dagskrá,“ segir hann.