Flugáætlun TF-IAA gerir ráð fyrir brottför frá Keflavíkurflugvelli klukkan 9:30 í fyrramálið. Lending á Akureyrarflugvelli er áætluð klukkan 10:15, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair. Þar munu starfsmenn máta landgöngustiga flugvallarins við flugvélina sem og annan tækjabúnað vallarins.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, tekur fram að flugáætlun geti breyst, eins og oft sé með þjálfunarflug. Best sé að fylgjast með á FlightRadar og slá þá inn flugnúmerið FI5100.
Uppfært klukkan 10:20. Flugtak frá Keflavík var klukkan 10:12 og er lending á Akureyri áætluð klukkan 10:44.

Á Akureyrarflugvelli er gert ráð fyrir einni lendingu og um það bil 45 mínútna stoppi. Flugtak frá Akureyri er áætlað klukkan 11:00. Þaðan verður flogið til Egilsstaða þar sem ein lending er áætluð klukkan 11:30. Þar verður sömuleiðis áð í um það bil 45 mínútur til að starfsmönnum flugvallarins gefist færi á að prófa afgreiðslu þotunnar.
Flugtak frá Egilsstöðum er áætlað klukkan klukkan 12:15. Lokaleggur hringferðarinnar verður svo til Keflavíkur. Þar er lending áætluð klukkan 13:00 á morgun.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá komu flugvélarinnar til Íslands síðastliðinn þriðjudag:
Flugið til Akureyrar og Egilsstaða verður síðasta þjálfunarflugið áður en þotan verður sett inn á áætlunarleiðir Icelandair. Fyrsta farþegaflugið er ráðgert á þriðjudagsmorgni 10. desember. Það verður frá Keflavík til Stokkhólms og til baka. Síðdegis sama dag er svo áformað að þotan fljúgi til Kaupmannahafnar og til baka um kvöldið til Íslands.