Þinghald í málinu var lokað en dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra klukkan 14 í dag.
Karlmaðurinn var annars vegar ákærður fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi þann 22. apríl þegar konan lést. Hann var í ákærunni sagður hafa beitt konuna alls konar ofbeldi og misþyrmt henni í aðdraganda andlátsins. Konan hlaut ýmsa áverka og lést af völdum innvortis blæðingar.
Karlmaðurinn var einnig ákærður fyrir brot í nánu sambandi þann 6. febrúar. Hann var sagður hafa nefbrotið konuna, veitt henni áverka aftan á hálsi og hnakka, undir öðru auga og handlegg. Gerð var krafa fyrir hönd sona ákærða og hinnar látnu um miskabætur upp á sex milljónir króna.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er stefnt á að birta dóminn í málinu á vefsíðu Héraðsdóms Norðurlands eystra á morgun.