„Tillagan felur í sér að hluti þeirra húsa sem orðið hafa fyrir tjóni verði fjarlægður, en að ummerki hamfaranna, svo sem lega sprungna, hraun og einhver ummerki húsa, verði varðveitt og nýtt á nýstárlegan hátt,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.
Kallað var eftir hugmyndum Grindvíkinga í október síðastliðnum. Tillögurnar eru unnar af Batteríinu Arkitektum. Hér má sjá tillögurnar í teikningum og korti.


Fram kemur í tillögunni að á meðal þess sem er lagt til sé að varðveita Hópið, Salthúsið og Verkalýðshúsið við Víkurbraut. Þá eigi að setja upp sýningar, gönguleiðir og merkingar til að gera náttúruöflin og áhrif þeirra sýnileg.
„Tillagan býður upp á einstaka blöndu af sögu og framtíðarsýn.“

Í tilkynningunni segir að boltinn sé nú hjá sjálfum Grindvíkingum, en þeir eru hvattir til að kynna sér rammaskipulagið, tjá sig og koma með ábendingar um hvernig þeir vilja sjá bæinn sinn þróast. Þeir geta komið sínum ábendingum á framfæri hér.
„Með þessum hætti fá allir Grindvíkingar tækifæri til að taka þátt í því að móta framtíð bæjarins með tilliti til arfleifðar jarðhræringanna.“