Trump birti í dag stuðningsyfirlýsingu við Johnson, sem er neðst í langri færslu á Truth Social, samfélagsmiðli Trumps. Sú færsla er að mestu um sigur Trumps í forsetakosningunum í nóvember og hversu góð kosningabaráttu Trump stóð fyrir.
Í lok færslunnar segir Trump að Johnson sé góður, duglegur og trúaður maður sem muni standa sig í starfi. Hann njóti fulls stuðnings Trumps.
Í frétt New York Times segir að þessi yfirlýsing hafi verið birt eftir margra daga viðræður milli Trumps og ráðgjafa hans um hvort forsetinn verðandi ætti að koma Johnson til bjargar eða finna nýjan þingforseta.
Það er í kjölfar þess að Elon Musk og Trump kollvörpuðu þinginu rétt fyrir jólafrí og stöðvuðu samþykkt bráðabirgðafjárlög sem Johnson hafði samið um við Demókrata, sem voru enn með meirihluta í öldungadeildinni og verða með til 3. janúar.
Grófu undan Johnson
Mikil óreiða myndaðist á þingi litu miklar deilur innan þingflokks Repúblikanaflokksins dagsins ljós. Nýtt frumvarp, sem Trump hafði lýst yfir stuðningi við og átti að hækka skuldaþakið svokallaða, hlaut afhroð á þinginu þegar 38 þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði gegn því.
Naumlega tókst þó að koma í veg fyrir stöðvun rekstur alríkisins vestanhafs með frumvarpið sem svipaði nokkuð til upprunalega frumvarpsins en dregið hafði verið töluvert úr umfangi þess og þar að auki náði það eingöngu til þriggja mánaða, sem felur í sér vandræði fyrir Trump snemma á forsetatíð hans á næsta ári.
Óreiðan sem Trump og Musk ollu og deilurnar sem henni fylgdu grófu verulega undan Johnson og hafa borist fregnir af því að þó nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins hafi sagst ekki ætla að kjósa hann aftur í embætti þingforseta þann 3. janúar, eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar.
Þá hefur NYT eftir öðrum Trump-liðum að Trump hafi sagt í einrúmi að Johnson hefði beðið hann um aðstoð en hann væri ekki viss hvort hann vildi styðja þingforsetann.
Heimildarmaður NYT úr innstu röðum Trump-liða sagði í samtali við blaðamann NYT að deilurnar og það hve margir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu sem Trump vildi, hefði sýnt forsetanum verðandi að hann gæti þurft að etja kappi við einhverja þingmenn en að Johnson væri ekki einn þeirra.
Trump er þó sagður reiður yfir því að Johnson hafi ekki tekist að hækka skuldaþakið, eins og Trump krafðist, því hann vilji ekki þurfa að standa í svo erfiðu máli svo snemma á kjörtímabili sínu.
Þarf næstum alla sína þingmenn
Meirihluti Repúblikana í fulltrúadeildinni verður mjög lítill. Til að ná kjöri í embætti þarf þingforseti að fá atkvæði meirihluta þingmanna, eða að minnsta kosti 218. Þingmenn Repúblikanaflokksins eru 220 talsins og þingmenn Demókrataflokksins 215.
Johnson mun því þurfa að reiða sig á stuðning svo gott sem allra sinna þingmanna, því hann á ekki von á neinu atkvæði frá Demókrötum.
Takist ekki að velja þingforseta á föstudaginn næstkomandi, gæti það einnig tafið formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna formlega þann 6. janúar.