Inflúensa hefur, samkvæmt tilkynningu frá embætti landlæknis, tekið við að RS veirusýkingu sem algengasta ástæða einangrunar vegna öndunarfæraveira á Landspítala.
Á þessari síðustu heilu viku ársins, frá 23. til 29. desember, voru 22 inniliggjandi með inflúensu, af þeim átta í aldurshópnum 65 ára og eldri en tveir yngri en 5 ára.
Færri greindust með RS veirusýkingu í vikunni en vikurnar á undan, eða 70 manns. Sextán lágu inni á Landspítala með RS veirusýkingu, þar af þrjú börn undir eins árs aldri, tvö á aldrinum eins til fimm ára, og fimm 65 ára og eldri.
Þá greindust einnig átta einstaklingar með COVID-19 og voru sex þeirra inniliggjandi, fjórir 65 ára og eldri en tveir á aldrinum 15 til 64 ára.