Ólafur Sveinn Jóhannesson, bróðir Árna, staðfestir andlát bróður síns í samtali við Vísi en hann greindi frá andlátinu á Facebook-síðu sinni í gær.
„Ástkær bróðir okkar - Árni Grétar Jóhannesson - hefur kvatt þennan heim. Eftir hann liggur aragrúi tónverka, ljósmynda og texta sem lýsa fallegri sál,“ segir í færslu Ólafs. Hægt er kynna sér verk Árna á vefsíðu hans futuregrapher.bandcamp.com.
„Hann hefur spilað víða við góðar undirtektir – m.a. á Iceland Airwaves, Sonar Reykjavík, Aldrei fór ég suður, Extreme Chill og í N-Ameríku og Evrópu. Futuregrapher hefur gefið út tvær breiðskífur: LP og Skynvera, margar smáskífur og gert endurhljóðblandanir fyrir aðila eins og Mick Chillage, Samaris, Ghostigital og Kimono. Árni Grétar starfar einnig í hljómsveitinni Royal ásamt Birni Kristjánssyni (Borko) og með tónlistarmanninum Jóni Ólafssyni (Jón Ólafsson & Futuregrapher),“ segir á vefsíðunni Ísmús, íslenskur músík- og menningararfur, um Árna.
Nærri allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu, auk björgunarkafara, var kallað út eftir að tilkynning barst um að ökutæki hafi hafnað sjónum við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn á öðrum tímanum á gamlársdag. Kafarar slökkviliðsins sóttu Árna úr bílnum skömmu síðar.