Fótbolti

Glódísar-æði hefur gripið um sig: „Ég kom til að horfa á Glódísi“

Aron Guðmundsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir var kjörin íþróttamaður ársins 2024 nokkrum dögum áður fékk hún fálkaorðuna. Hún er fyrirliði Bayern Munchen og íslenska landsliðsins í fótbolta. Mikil fyrirmynd innan sem og utan vallar. 
Glódís Perla Viggósdóttir var kjörin íþróttamaður ársins 2024 nokkrum dögum áður fékk hún fálkaorðuna. Hún er fyrirliði Bayern Munchen og íslenska landsliðsins í fótbolta. Mikil fyrirmynd innan sem og utan vallar.  vísir/Hulda Margrét

Glódís Perla Viggós­dóttir, íþrótta­maður ársins 2024, segist finna fyrir svo mikilli ást og hlýju frá íslensku þjóðinni. Ungir aðdáendur fengu tækifæri til að hitta átrúnaðar­goð sitt í Kórnum í gær. Hálf­gert Glódísar æði hefur gripið um sig.

HK blés til alls­herjar fögnuðar í höfuðstöðvum sínum í Kórnum í gær þar sem að Glódís Perla, fyrir­liði ís­lenska lands­liðsins og Bayern Munchen, mikill HK-ingur og nýkjörin íþrótta­maður ársins var heiðruð að viðstöddu marg­menni.„Ótrú­lega ljúft að koma hingað,“ segir Glódís í sam­tali við íþrótta­deild. „Það hefur mikið breyst síðan að ég var í HK á sínum tíma. Félagið hefur vaxið. Bara ótrú­lega gaman að koma hingað og sjá hversu mikið hefur gerst og hversu mikla þýðingu ég hef fyrir klúbbinn.“

Ung­viðinu á svæðinu gafst svo tækifæri til þess að hitta fót­bolta­stjörnuna og fá hjá henni eigin­handará­ritun, þeirra á meðal voru þrjár fót­bolta­stelpur úr HK, þær Kamilla, Elísa og Erla sem ætla sér allar að verða fót­bolta­konur eins og Glódís en rætt er við þær í mynd­skeiðinu hér fyrir ofan.

Glódís heldur brátt af landi brott til Þýska­lands þar sem baráttan með Bayern Munchen tekur við en ekki hefur verið um neitt venju­legt frí yfir hátíðirnar að ræða hjá henni hér heima. Hún var sæmd heiðurs­merki hinnar ís­lensku fálka­orðu á nýárs­dag og eins og fyrr sagði valin íþrótta­maður ársins. Veran hér á landi hefur snert við henni og hún þarf tíma til þess að melta allt það sem hefur drifið á hennar daga hér á landi yfir hátíðirnar.

„Ég held ég verði að gefa mér smá tíma í það þegar að ég held aftur út. Að setjast niður og virki­lega hugsa um þetta, leyfa mér að njóta alls þess sem hefur gerst núna. Þetta eru náttúru­lega bara al­gjör forréttindi, að vera í þessari stöðu sem ég er í. Maður finnur fyrir svo mikilli hlýju og ást frá sam­félaginu, frá Ís­landi, frá HK. Þetta er búið að vera ótrú­lega gaman. Að vera heima núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×