Viðskipti innlent

Hótel Sel­foss verður Marriott hótel

Lovísa Arnardóttir skrifar
Á hótelinu er að finna veitingastað og spa.
Á hótelinu er að finna veitingastað og spa. Aðsend

Hótel Selfoss hefur skrifað undir samning við Marriott International um að hótelið verði Four Points by Sheraton hótel, eitt af yfir 30 framúrskarandi vörumerkjum Marriott Bonvoy.

Í tilkynningu segir að Marriott Bonvoy sé ein stærsta og þekktasta hótelkeðja heims, þekkt fyrir afburða þjónustu og mikil þægindi.

„Við erum mjög spennt að fá Hótel Selfoss inn í Marriott Bonvoy sem Four Points by Sheraton hótel. Staðsetning hótelsins er frábær, þjónustan framúrskarandi, herbergin rúmgóð og öll aðstaða til fyrirmyndar,“ segir Axel Steinbach, þróunarstjóri Marriott International fyrir Norðurlöndin í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að með því að tengjast Marriott muni Hótel Selfoss styrkja stöðu sína á hótelmarkaði og bjóða gestum upp á nýja og spennandi möguleika. Hótel Selfoss er staðsett við bakka Ölfusár á Selfossi.

„Við erum mjög ánægð með þessa breytingu og teljum að samstarfið við Marriott muni hjálpa okkur að veita gestum hótelsins enn betri upplifun. Jafnframt mun tengingin við Bonvoy skapa ný markaðstækifæri fyrir Hótel Selfoss,“ segir Björgvin Jóhannesson, hótelstjóri Hótel Selfoss

Ekki áhrif á verðskrá

Sigríður Gröndal, framkvæmdastjóri JAE ehf, sem keypti Hótel Selfoss árið 2022 segir þessa breytingu ekki hafa áhrif á verðskrá hótelsins. 

„Nei. Verðið er síbreytilegt og ræðst af framboði og eftirspurn, rétt eins og flugfargjöld í flugvélum,“ segir Sigríður í svari til fréttastofu. 

Þá segir hún einnig að það verði skoðað hvort fleiri hótel í eigu JAE ehf geti orðið Marriott hótel. JAE ehf á til dæmis Hótel Vestmannaeyjar. 

Fréttin hefur verið uppfærð með svari Sigríðar. 


Tengdar fréttir

Ingibjörg og eigendur Eskju kaupa Hótel Selfoss

Hið nýstofnaða eignarhaldsfélag JAE, sem er meðal annars í eigu Ingibjargar Pálmadóttur fjárfestis og eigenda útgerðarfyrirtækisins Eskju, hefur gengið frá kaupum á Hótel Selfoss. Áður hafði sama félag fyrr á árinu einnig eignast Hótel Vestmannaeyjar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×