Handbolti

Mikið á­fall fyrir Eyjakonur

Sindri Sverrisson skrifar
Marta Wawrzynkowska verður ekki með ÍBV á næstunni.
Marta Wawrzynkowska verður ekki með ÍBV á næstunni. vísir/Diego

Sennilegt þykir að markvörðurinn frábæri Marta Wawrzynkowska hafi þegar spilað sinn síðasta leik fyrir ÍBV á þessari leiktíð, í Olís-deild kvenna í handbolta.

Frá þessu er greint á handbolti.is þar sem Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, staðfestir að Marta sé með rifu í krossbandi í hné. Meiðslin komu í ljós þegar Marta fór í liðþófaaðgerð í byrjun desember og segir Sigurður alveg óvíst hvenær hún geti snúið aftur til keppni. Skoðun í næstu viku gæti skýrt það betur.

Marta hefur verið einn albesti markvörður deildarinnar og þrátt fyrir að ÍBV sé meðal neðstu liða þá hefur Marta, samkvæmt tölfræðivef HB Statz, varið 38,5% skota á mark liðsins, eða 13,4 skot í leik. Aðeins Hafdís Renötudóttir hjá meisturum Vals hefur varið fleiri skot að meðaltali í vetur eða 13,6, og skera þær sig nokkuð úr.

Bernódía Sif Sigurðardóttir varði mark ÍBV um helgina, í fyrsta leik liðsins eftir hlé frá því um miðjan nóvember í Olís-deildinni. Hún varði 11 skot og var með 31,4% markvörslu, samkvæmt vef HB Statz, en Eyjakonur töpuðu þó á heimavelli, 26-23 gegn ÍR.

Eftir tapið um helgina er ÍBV jafnt ÍR og Stjörnunni í 5.-7. sæti deildarinnar en liðin eru með sex stig hvert eftir tíu umferðir, tveimur stigum fyrir ofan Gróttu sem er á botninum. Neðsta liðið fellur niður í Grill 66 deildina og næstneðsta liðið lendir í umspili við lið úr þeirri deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×