Niðurstöður könnunarinnar sýna að alls eru 27 prósent andvíg atkvæðagreiðslu og 15 prósent eru hvorki hlynnt né andvíg.

Flestir sem eru hlynntir atkvæðagreiðslu kusu Pírata í síðustu kosningum eða 85 prósent og fæstir þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn eða 16 prósent. 84 prósent þeirra sem kusu Samfylkinguna eru hlynnt og 79 prósent þeirra sem kusu Viðreisn. Aðeins eru 51 prósent hlynnt aðild sem kusu Flokk fólksins. Það er því nokkur munur á milli kjósenda þeirra og kjósenda annarra ríkisstjórnarflokka.

Í niðurstöðunum má einnig sjá að flestir sem eru hlynntir atkvæðagreiðslu eru í aldurshópnum 45 til 54 ára eða 65 prósent svarenda. Fæstir eru hlynntir atkvæðagreiðslu í aldurshópnum 18 til 24 ára eða 50 prósent.
45 prósent hlynnt aðild
Samkvæmt niðurstöðunum eru alls 45 prósent svarenda hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu, 35 prósent eru andvíg og 20 prósent eru hvorki andvíg né hlynnt.
Flestir eru andvígir aðild að Evrópusambandinu sem eru á eftirlaunum eða 43 prósent og 41 prósent atvinnurekenda og/eða sjálfstætt starfandi.

Hvað varðar upptöku nýs gjaldmiðils á Íslandi í stað íslensku krónunnar eru fleiri hlynntir því en Evrópusambandsaðildinni sjálfri, eða alls 53 prósent. Alls eru 27 prósent andvíg og 20 prósent eru hvorki hlynnt né andvíg.

Þegar tölurnar eru skoðaðar saman má sjá að 86 prósent þeirra sem eru hlynnt aðild að Evrópusambandinu eru einnig hlynnt upptöku nýs gjaldmiðils. Þá eru 17 prósent þeirra sem eru andvíg aðild að Evrópusambandinu hlynnt upptöku nýs gjaldmiðils og 41 prósent þeirra sem eru hvorki hlynnt né andvíg aðild að ESB eru hlynnt upptöku nýs gjaldmiðils.