Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Samtaka áhugafólks um spilafíkn, SÁS, vegna rektorskjörs sem fram fer í Háskóla Íslands í apríl, en framboðsfrestur er til loka janúar. Þar segir að áskorun samtakanna sé tvíþætt:
„1) Samtökin hvetja til framboðs einstaklinga sem afdráttarlaust eru þeirrar skoðunar að Háskóli Íslands eigi að hætta að reiða sig á fjármuni aflað er á kostnað spilafíkla með rekstri spilakassa. 2) Kennarar, aðrir starfsmenn og nemendur á kjörskrá eru hvattir til að kynna sér hug frambjóðenda til þeirrar staðreyndar að Háskóli Íslands rekur spilavíti sem óvéfengjanlega hafa lagt líf einstaklinga og fjölskyldna í rúst.“
Munu ganga á frambjóðendur
Forsvarsmenn samtakanna segja að gengið verði eftir svörum frá frambjóðendum um afstöðu þeirra til málsins.
Samtökin segja þá fjölda starfsmanna og nemenda við Háskóla Íslands hafa hvatt til þess að látið verði af „þessari ósiðlegu starfsemi“. Nefnd á vegum háskólans hafi nýlega komist að afgerandi niðurstöðu um að breytingu verði að gera á starfseminni strax, en þeirri niðurstöðu „virðist hafa verið stungið undir stól“.
„Illa fengið fé“ renni til háskólans
„Þá má einnig minna á að yfirgripsmikil skoðanakönnun á vegum Gallup fyrir nokkrum misserum gaf til kynna að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar væri andvígur rekstri spilakassa og spilavíta og vill að þeim verði lokað,“ segir í tilkynningunni.
Um er að ræða könnun frá árinu 2020 sem gerð var eftir að spilakassar voru opnaðir á nýjan leik, eftir að hafa verið lokaðir vegna Covid-faraldursins.
Þá segir í niðurlagi tilkynningarinnar að ætla mætti að æðsta menntastofnun þjóðarinnar sæi sóma sinn í því að láta af rekstri spilakassa „sem færir henni illa fengið fé auk þess að hafa milligöngu um að greiddar séu háar upphæðir til erlendra spilavítisfyrirtækja sem leigja Happdrætti Háskóla Íslands vélarnar“.