Grunur leikur á að maðurinn hafi tekið falsaða Xanax töflu en lyfið er vinsælt lyfseðilsskylt lyf í Bandaríkjunum og er notað við kvíða. Lyfið er hins vegar ekki fáanlegt í apótekum hér á landi. Virka efnið í Xanax er Alprazolam en hinar fölsuðu töflur innihalda í raun efnið Flualprazolam en það lyf er ekki almennt selt í apótekum.
„Það er bara það sem við óttumst að fólk fari og kannski fólk sem er að kaupa þetta haldi að það sé að kaupa eitthvað sem það er búið að kaupa áður. Veit ekki nákvæmlega hvað þetta inniheldur og fyrir vikið þá tekur það eitthvað sem það þekkir ekki,“ segir Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Töflurnar séu seldar á svörtum markaði hér á landi og auðvelt að nálgast þær.
„Það er enginn sem veit hvað er í þessu. Þetta er bara steypt einhvers staðar og það sem er sett í þetta það er ekki þar með sagt að það sé eitthvað sem einhver getur svarað fyrir nákvæmlega. Það er bara alls ekki.“

Þannig sé oft erfitt að átta sig á styrkleika þess sem verið sé að taka en lögregla lagði nýlega hald á óvenjusterkar MDMA töflur á leið til landsins. Þær innihéldu tvöfalt meira magn MDMA en töflurnar gera að jafnaði.
Elín segir sölu ólöglegra lyfja hafa aukist undanfarin misseri.
„Við erum sammála, sem störfum við þetta, að það sé talsvert mikil aukning á lyfjum. Á því sem eiga að heita lyf. Því sem að líta út eins og lyf sem koma út úr apótekinu.“
Þá varar hún fólk við að kaupa lyf á svörtum markaði.

„Auðvitað er það bara rosalega gott ef að menn myndu bara taka það sem að læknirinn skrifar upp á og þú færð út úr apótekinu og fer í gegnum þann feril en ekki í undirheimunum. Þegar menn eru að kaupa svona lyf þá eru menn bara að gambla með líf sitt. Það er bara þannig.“