Verðbólgumælingin var ekki „jafn uppörvandi“ og lækkunin gaf til kynna

Ef ekki hefði komið til lækkunar húsnæðisliðarins og flugfargjalda umfram spár greinenda þá hefði mælda tólf mánaða verðbólgan hækkað í fimm prósent í janúar, að sögn aðalhagfræðings Kviku banka, sem óttast „vaxandi tregðu“ í þeirri verðbólgu sem eftir stendur. Þótt nýjasta verðbólgumælingin hafi ekki verið „jafn uppörvandi“ og hjöðnunin gaf til kynna þá ætti hún samt að „innsigla“ aðra fimmtíu punkta vaxtalækkun í næstu viku, meðal annars vegna þess að verðbólguvæntingar eru á hraðri niðurleið.
Tengdar fréttir

Raunvextir Seðlabankans orðnir hærri en þeir mældust við síðustu vaxtalækkun
Eftir skarpa lækkun á verðbólguvæntingum fyrirtækja og heimila stóðu raunstýrivextir, eins og Seðlabankinn metur þá, í hæstu hæðum í lok síðasta árs og eru þeir núna lítillega hærri en þegar peningastefnunefnd ákvað að lækka vexti um fimmtíu punkta á fundi sínum í nóvember. Að óbreyttu ætti sú þróun að auka líkur á stórri vaxtalækkun í febrúar en á sama tíma hefur undirliggjandi verðbólga haldið áfram að lækka og mælist nú ekki minni, að sögn Seðlabankans, síðan í árslok 2021.

Íbúðaverð gefur eftir samtímis háum raunvöxtum og stífum lánaskilyrðum
Fasteignamarkaðurinn er heilt yfir nokkuð kaldur um þessar mundir, sem birtist meðal annars í fækkun kaupsamninga og íbúðaverð staðið nánast í stað síðustu mánuði, og útlit er fyrir að raunverð geti gefið eftir á fyrri hluta ársins samtímis háum raunvöxtum og þröngum lánþegaskilyrðum, að mati hagfræðinga Arion. Á sama tíma og mjög hefur dregið úr verðhækkunum á fasteignamarkaði hefur framboð á íbúðum til sölu aukist talsvert, drifið áfram af fjölgun nýbygginga, og ekki verið meira um langt skeið.