Þættir um tímaritið hafa verið til sýningar á Stöð 2 síðustu vikur. Þættirnir eru gerðir af sjónvarpsmanninum Þorsteini J. Vilhjálmssyni og fjalla um tímaritið sem bauð upp á íslenskt slúður í tuttugu ár, frá 1996 til 2016. Saga slúðurtímaritsins er sögð með viðtölum við blaðamenn og viðmælendur blaðsins. Þar kemur meðal annars fram að umbrotsviðmið blaðsins hafi verið að hafa myndskreytingar ríkulegar, æsilegar forsíðu og krassandi fyrirsagnir.
Sigríður Dagný segir ekkert ákveðið með framhaldslíf Séð og heyrt.
„Ég get ekki sagt til um það. Það hefur skapast umræða um þetta út frá þáttunum á Stöð 2, en ég get ekkert sagt til um það.“
En það er í skoðun?
„Það er allt í skoðun, alltaf. Birtíngur á fullt af tímaritum og vörumerkjum. Við erum alltaf að skoða eitthvað spennandi að gera og gefa út. Kannski ekki Bleikt og blátt aftur en Birtíngur á fullt af vörumerkjum. Við erum alltaf að huga hvernig við getum styrkt útgáfuna.“
Ef farið væri í slíka útgáfu á ný yrði að vanda til verka og hugsa útgáfuna út frá breyttum tímum.
„Við erum búin að styrkjast rosalega mikið á þessum rafræna grunni. Eftir að við fórum að gefa út stafrænar áskriftir líka. Þannig það er hellingur í skoðun. Við erum alltaf að leita leiða til að styrkja útgáfuna og það er aldrei að vita.“