Dægurmálamiðillinn TMZ greindi fyrstur frá fæðingu barnsins.
Ekki kemur fram hvenær nákvæmlega barnið fæddist en það hafi verið mjög nýlega. Sömuleiðis er ekki vitað hvort um strák eða stelpu er að ræða en bæði móður og barni farnast vel.
Vísir fjallaði um óléttutilkynningu hjónanna í lok október á síðasta ári en þar kom fram að Gisele væri genginn um fimm til sex mánuði á leið.
Fyrir á hin brasilíska Bündchen tvö börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, NFL-leikstjórnandanum Tom Brady: hinn fimmtán ára Benjamin Rein og hina ellefu ára Vivian Lake.
Bündchen og Brady skildu í október árið 2022 eftir þrettán ára hjónaband. Guli miðillinn Page Six hefur eftir heimildarmönnum sínum að Brady sé ánægður fyrir hönd Bündchen, óski henni alls hins besta og hafi haft samband til að óska henni til hamingju.
Heillaðist af jiu-jitsu-þjálfaranum
Sjö ára aldursmunur er á parinu, Bündchen er 44 ára og Valente 37 ára, en þau eru bæði frá Brasilíu. Þau kynntust í byrjun árs 2022 eftir að hún fór með son sinn til Valente í Jiu-jitsu tíma. Hún hafi ekki verið sérstaklega áhugasöm um íþróttina en heillast fljótt.

„Þegar ég fór með Ben í fyrsta tímann og talaði við Joaquim áttaði ég mig á því að þetta var miklu meira en bara sjálfsvarnartímar,“ sagði hún í viðtali við Dust Magazine 2022. Valente hafi síðan sannfært hana að koma í tíma til sín, sem hún gerði.
Parið hélt sambandi sínu utan sviðsljóssins þar til í júní í fyrra og tilkynnti óléttuna svo þremur mánuðum seinna. Fyrst sást til þeirra saman í fríi í Kosta Ríka í nóvember 2022, aðeins einum mánuði eftir skilnað hennar við Brady, ásamt börnum hennar.