Eins og margir Ástralar þá er Mailata alinn upp við að spila rúgbý og hafði aldrei spilað leik í amerískum fótbolta er hann var valinn af Philadelphia Eagles í nýliðavalinu árið 2018.
Hann ætlaði sér að verða atvinnumaður í rúgbý en það gekk hægt að elta þann draum. Mailata var einfaldlega of stór fyrir íþróttina. Hann er nefnilega 203 sentimetrar að stærð og tæp 170 kíló.

Þá fékk hann besta ráð lífsins. Að hann skildi prófa íþrótt sem hentaði hans líkama. Án þess að hafa nokkurn tímann æft amerískan fótbolta skráði hann sig í NFL-skóla sem hjálpar erlendum íþróttamönnum við að komast í NFL-deildina. Þar fá þeir skyndinámskeið í íþróttinni og geta sýnt sig fyrir njósnurum liða deildarinnar.
Orðið um Mailata barst til Howie Roseman, framkvæmdastjóra Eagles, og hann hringdi í sóknarlínuþjálfarann sinn, Jeff Stoutland, og bað hann um að kíkja strax á strákinn. Stoutland var þá á leiðinni í golfferð sem hann varð að sleppa. Hann hefur aldrei séð eftir því.
„Ég vissi ekki við hverju var að búast. Þetta var rúgbý gæi þannig að mér fannst þetta hálfgalið. Að fara á þessa æfingu var besta ákvörðun lífs míns fyrir utan að hafa gifst konunni minni,“ segir Stoutland er hann rifjar upp þennan eftirminnilega tíma árið 2018.

„Ég setti upp æfingar fyrir hann og drengurinn flaug um völlinn. Ég var bara Guð minn góður en leyndi því þar sem það voru menn frá öðrum félögum þarna. Ég vildi ekki að neinn sæi hvað ég hefði mikla trú á þessum unga manni. Eftir æfinguna hringdi ég í Howie og grátbað um að fá að þjálfa þennan mann.“
Nokkrum vikum síðar ákveður Eagles að velja tvítugan Mailata númer 233 í nýliðavalinu. Margir hristu hausinn yfir því en gera það ekki í dag.

Næstu tvö ár fóru í að kenna Mailata íþróttina og slípa hann til.
„Þetta gekk alls ekki smurt fyrir sig en einn daginn kviknaði ljósið og hann fór að hafa trú á sér. Hann bætti sig gríðarlega á hverju ári,“ bætti Stoutland við en Mailata spilaði fyrst fyrir Eagles árið 2020 og er í dag einn besti sóknarlínumaður deildarinnar.
Í fyrra skrifaði hann undir þriggja ára samning sem færir honum hátt í tíu milljarða króna í laun. Sannkallað Öskubuskuævintýri.