Flugbrautinni var lokað fyrir þremur dögum en um er að ræða austur-vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar og er nú einungis ein flugbraut í notkun. Samgöngustofa fyrirskipaði aðgerðina vegna trjágróðurs í Öskjuhlíð sem er sagður skerða öryggi flugfarþega.
Lokunin á sér nokkurn aðdraganda en borgin og flugmálayfirvöld hafa deilt um þann fjölda trjáa sem þurfi að fella til að tryggja öryggi flugfarþega sem fara um Reykjavíkurflugvöll.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir fellingu trjánna í dag gerða með öryggi í huga.
„Fyrsta skrefið í því að verða við tilmælum Samgöngustofu um að fella þarna dálítið af trjám. Lykilatriðið er það að opna flugbrautina. Flugvöllurinn þjónar öllum landsmönnum og sjúkraflugið er þar mikilvægast. Þannig að við erum að vinna þetta í samvinnu við Isavia og Samgöngustofa.“
Þá segir Einar að fleiri tré verði felld.
„Við felldum fjörutíu og fimm tré í september eftir þessum fleti. Þetta byggir á svona hæðarmælingum og síðan er verið að vinna að aðgerðaáætlun um fellingu hátt í fimm hundruð trjáa sem verður farið í á næstunni.“