Viðskipti innlent

Milljarðaviðskipti í bönkunum í morguns­árið

Árni Sæberg skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, og Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Velta með hlutabréf í Arion banka nemur 1,7 milljörðum króna og viðskipti með bréf í Íslandsbanka nálgast hálfan milljarð í utanþingsviðskiptum og síðan markaðir opnuðu í morgun. Gengi hlutabréfanna hefur hækkað lítillega.

Stjórn Arion banka greindi frá því eftir lokun markaðar á föstudag að hún hefði áhuga á samruna við Íslandsbanka. Bankastjóri Íslandsbanka hefur sagt mögulegan samruna áhugaverðan og eitthvað sem skoðað verði hratt og örugglega af stjórn og stjórnendum bankans.

Klukkan 10 hafði velta með hlutabréf Arion banka náð 1,7 milljörðum króna og verð bréfanna hækkað um 2,33 prósent. Mikill meirihluti veltunnar var í gegnum fá utanþingsviðskipti sem tilkynnt var um við opnun markaðar.

Á sama tíma hafði velta með bréf í Íslandsbanka náð 398 milljónum króna í 16 færslum. Gengið bréfanna hefur hækkað um 3,57 prósent það sem af er degi.

Þá vekur athygli að talsvert var um utanþingsviðskipti með bréf í Kviku, þriðja viðskiptabankanum á markaði. Velta nam 464 milljónum króna í fernum viðskiptum.


Tengdar fréttir

Arion banki vill sameinast Íslandsbanka

Stjórn Arion banka ákvað á fundi sínum í dag að lýsa yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna félaganna. Bréf þess efnis hefur verið sent til stjórnarformanns og bankastjóra Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×