Erlent

Blaða­menn AP í straffi hjá Hvíta húsinu vegna Mexíkó­flóa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mexíkóflói eða Ameríkuflói? Svarið getur skipt sköpum.
Mexíkóflói eða Ameríkuflói? Svarið getur skipt sköpum. Google Maps

Hvíta húsið greindi frá því á föstudag að blaðamenn og ljósmyndarar AP fréttaveitunnar hefðu verið bannfærðir, bæði í Hvíta húsinu og forsetaflugvélinni Air Force One.

Ástæðan er ákvörðun ritstjórnarinnar að halda áfram að nota heitið „Mexíkóflói“ í stað þess að beygja sig undir fyrirskipun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að flóinn skuli hér eftir heita „Ameríkuflói“.

„Það eru forréttindi að fá flytja fréttir úr Hvíta húsinu,“ sagði Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Trump, í síðustu viku. „Enginn á rétt á því að ganga inn á skrifstofu forsetans og spyrja hann spurninga. Það er eitthvað sem mönnum er boðið að gera.“

Leavitt sagðist hafa verið afar skýr með það frá fyrsta degi að þeir fjölmiðlar sem yrðu uppvísir að „lygum“ yrðu gerðir brottrækir úr fjölmiðlaaðstöðunni. Og nú væri það staðreynd málsins að umræddur flói héti Ameríkuflói.

Julie Pace, aðalritstjóri AP, hefur sent Hvíta húsinu erindi þar sem ákvörðuninni er harðlega mótmælt. Bendir hún á að að sé kjarni fyrsta ákvæðis stjórnarskrárinnar að stjórnvöld geti ekki gripið til aðgerða og refsað einstaklingum og fjölmiðlum fyrir það sem þeir segja.

Stjórnendur bandaríska vefmiðilsins Axios, sem var stofnaður af fyrrverandi blaðamönnum Politico, hafa tilkynnt að þeir hyggist nota „Ameríkuflói“, enda sé lesendahópur miðilsins aðallega bandarískur. 

Erlendir miðlar virðast margir hverjir hafa ákveðið að nota áfram „Mexíkóflói“ en fyrirtæki á borð við Google feta miðjuveg og nota bæði, eftir því hvar notendur eru í heiminum.

Þannig fá Íslendingar til að mynda upp „Gulf of Mexico (Gulf of America)“ ef þeir leita að flóanum á Google Maps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×