Handbolti

Þriðja landsliðskona liðsins orðin ó­frísk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk og Marit Jacobsen eru liðsfélagar hjá bæði félagsliði og landsliði. Þær eru líka báðar óléttar.
Nora Mörk og Marit Jacobsen eru liðsfélagar hjá bæði félagsliði og landsliði. Þær eru líka báðar óléttar. EPA-EFE/Enric Fontcuberta

Það er heldur betur barnalukkan meðal leikmanna danska handboltaliðsins Esbjerg. Þrír leikmenn liðsins eru nú komnir í barneignarfrí.

Norski Ólympíumeistarinn og Evrópumeistarinn Marit Rösberg Jacobsen var sú síðasta til að bætast í hóp þeirra óléttu í leikmannahópnum.

Hún hefur nú spilað síðasta leikinn á leiktíðinni en vonast til þess að ná næsta tímabili. Danska ríkisútvarpið segir frá.

„Ég er þvílíkt klár í þetta og vonandi kem ég til baka þremur eða fjórum mánuðum eftir að ég eignast barnið ef allt gengur vel. Ég hef metnaðarfull markmið og kannski nær ég að koma til baka fyrir jól,“ sagði Jacobsen.

Hún er þrítug og hefur spilað með danska liðinu frá 2018 og margoft verið valin besti hægri hornamaður dönsku deildarinnar.

Hún hefur líka unnið Ólympíugull (2024), EM-gull (2020, 2024) og HM-gull (2021) með norska landsliðinu.

Tvær aðrar landsliðskonur Esbjerg eru líka óléttar en það eru danska landsliðkonan Kathrine Heindahl og norska landsliðskonan Nora Mörk. Heindahl hefur spilað 145 landsleiki fyrir Dani, Mörk hefur spilað 192 leiki fyrir norska landsliðið og Jacobsen á að baki 127 leiki fyrir norska landsliðið.

Það kom sér vel fyrr Esbjerg að norska félagið Vipers fór á hausinn því danska liðið hefur sótt leikmenn þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×