Niðurskurðurinn er til viðbótar við aðra nýlega skipun til Pentagon um væntanlegan brottrekstur þúsunda starfsmanna ráðuneytisins á næstu dögum en þær uppsagnir eru liður í niðurskurði á vegum DOGE.
Sjá einnig: Segja Musk ekki stýra DOGE en neita að nefna yfirmann
Í frétt Washington Post segir að þetta komi meðal annars fram í nýlegu minnisbréfi sem Hegseth hafi sent og blaðamenn hafi komið höndum yfir. Þar koma fram sautján verkefni og deildir sem njóta undanþágu frá niðurskurði. Áætlanir eiga að liggja fyrir á mánudaginn.
Á listanum eru verkefni eins og nútímavæðing kjarnorkuvopna og loftvarnarkerfa Bandaríkjanna, kaup á nýjum kafbátum, þróun sjálfsprengidróna og vöktun hersins á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Robert G. Salesses, aðstoðarvarnarmálaráðherra, sagði í gær að niðurskurðinum væri ætlað að fjármagna verkefni sem væru í forgangi hjá Donald Trump, forseta. Nefndi hann til að mynda að þróun „Járnhvelfingar fyrir Ameríku“.
Þar var hann að vísa til loftvarnarkerfis Ísraela sem þeir nota til að skjóta niður skammdrægar eldflaugar og jafnvel sprengjum sem skotið er að Ísrael með sprengjuvörpum (e. mortar). Á ensku kallast þetta kerfi „Iron Dome“ en það er einn hluti umfangsmeira loftvarnakerfis Ísrael.
Bandaríska Járnhvelfingin á að vera mun umfangsmeiri.
Salesses sagði að þróun þess gæti kostað fimmtíu milljarða dali á næsta ári en fjárútlát til varnarmála í Bandaríkjunum á þessu ári eru áætluð 850 milljarðar dala. Trump skrifaði á dögunum undir forsetatilskipun þess eðlis að þróa „Járnhvelfingu fyrir Ameríku“.
Yrði gífurlega umfangsmikið kerfi
Samkvæmt henni er helsta ógnin sem stafar að Bandaríkjunum árásir með skotflaugum, ofurhljóðfráum eldflaugum og stýriflaugum, auk annarra árása úr lofti. Tilskipunin vísar til þess að Ronald Reagan hafi á árum áður hafið verkefni sem sneri að því að verja Bandaríkin gegn kjarnorkuvopnaárásum en það hafi verið stöðvað áður en markmiðum þess hafi verið náð. Síðan þá hafi ógnin aðeins aukist.
Loftvarnarkerfi sem þetta yfir gervöll Bandaríkin þyrfti að vera gífurlega umfangsmikið, taka marga áratugi í þróun og framleiðslu og kosta fúlgur fjár.
CNN segir að sambærilegt kerfi hafi lengi verið í þróun fyrir Gvam, eyju sem Bandaríkin eiga í Kyrrahafinu. Komi einhvern tímann til stríðs við Kína eru eyjan og herstöðvar þar mjög viðkvæmar gagnvart eldflaugaárásum.
Engin undanþága í Evrópu
Niðurskurðaráætlunin mun líklega mæta mótspyrnu á þingi en Repúblikanar hafa á undanförnum árum gagnrýnt Demókrata harðlega fyrir að verja ekki nægilegum fjármunum til varnarmála. Hingað til hafa Repúblikanar þó sýnt lítinn vilja til að fara gegn Trump.
Á lista yfir verkefni sem fá undanþágu eru yfirstjórnir herafla Bandaríkjanna í Kyrrahafinu og Asíu annars vegar og á norðurslóðum hins vegar. Það sama á ekki við yfirstjórnir í Evrópu, Mið-Austurlöndum og í Afríku.
Þykir það til marks við áherslur Trumps og ákalls hans og embættismanna hans um aukinna fjárútláta til varnarmála í Evrópu og að ríki Evrópu taki meiri ábyrgð á eigin öryggi.