Fótbolti

Fyrstur allra með þrennu á Nývangi og Santiago Bernabéu í Meistara­deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hvað gerðirðu mörg mörk? Þrjú, segirðu.
Hvað gerðirðu mörg mörk? Þrjú, segirðu. getty/M Gracia Jimenez

Kylian Mbappé náði merkum áfanga þegar hann skoraði öll þrjú mörk Real Madrid í 3-1 sigri á Manchester City í seinni leik liðanna í umspili um sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Mbappé skoraði eitt marka Real Madrid í dramatískum 2-3 sigri á City á Etihad í síðustu viku. Hann var svo í miklu stuði í gær og skoraði þrennu í öruggum 3-1 sigri Evrópumeistaranna sem unnu einvígið, 6-3 samanlagt.

Mbappé er nú eini leikmaðurinn í sögu Meistaradeildarinnar sem hefur skorað þrennu á Santiago Bernabéu og Nývangi, heimavelli Barcelona, tveimur af sögufrægustu fótboltavöllum heims.

Fyrir fjórum árum, nánast upp á dag (16. febrúar 2021), skoraði Mbappé þrennu þegar Paris Saint-Germain sigraði Barcelona, 1-4, á Nývangi í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Mbappé skoraði einnig mark PSG í seinni leiknum sem endaði með 1-1 jafntefli.

Mbappé hefur verið í miklum ham á þessu ári og skorað fjórtán mörk í fjórtán leikjum. Alls hefur hann skorað 28 mörk á sínu fyrsta tímabili fyrir Real Madrid.

Hinn 26 ára Mbappé hefur skorað 55 mörk í 83 leikjum í Meistaradeildinni. Hann er áttundi markahæstur í sögu keppninnar.

Það kemur í ljós á morgun hvort Real Madrid mætir Atlético Madrid eða Bayer Leverkusen í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×