Rubiales slapp við fangelsisvist en þarf að greiða 10.800 evrur í sekt, eða jafnvirði um 1,6 milljóna króna.
Þá má Rubiales ekki vera í 200 metra radíus við Hermoso né hafa samskipti við hana næsta árið.

Rubiales var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa neytt Hermoso til þess að ljúga því opinberlega að kossinn hefði verið með hennar samþykki. Jorge Vilda, sem þjálfaði heimsmeistaraliðið, og þeir Rubén Rivera og Albert Luque hjá spænska knattspyrnusambandinu, voru einnig sýknaðir af ákæru um hið sama.
Saksóknarar höfðu farið fram á að Rubiales yrði dæmdur til fangelsisvistar. Hermoso sagði við réttarhöldin að atvikið hefði varpað skugga á einn besta dag ævi hennar og að kossinn hefði svo sannarlega ekki verið með hennar samþykki. Því reyndi Rubiales að mótmæla en hann hefur nú verið fundinn sekur.
Milljónir sjónvarpsáhorfenda sáu kossinn enda átti hann sér stað í beinni útsendingu við verðlaunaafhendinguna, eftir að Spánn varð heimsmeistari í Ástralíu sumarið 2023.
Hermoso, sem verður 35 ára í vor, hefur leikið 123 landsleiki fyrir Spán og skorað í þeim 57 mörk. Hún var hins vegar ekki valin í landsliðshópinn sem á morgun mætir Belgíu í Þjóðadeildinni og svo Englandi fimm dögum síðar.