Góðu fréttirnar eru þær hrygningarstofninn virðist vera heilbrigður og ætti að geta skilað góðri hrygningu á næstu vikum. Vondu fréttirnar eru þær að sáralítið er til skiptanna umfram það magn sem talið er æskilegt að vernda til hrygningar. Staðan var skýrð í fréttum Stöðvar 2.
Hafrannsóknastofnun mælti með aðeins um 8.600 tonna kvóta. Af honum fá íslensk skip rúmlega helminginn, um 4.600 tonn, því Grænlendingar, Færeyingar og Norðmenn eiga einnig hlutdeild.

Á súluriti sést að þetta er í raun bara örkvóti í samanburði við þokkalegar loðnuvertíðir fyrri ára. Þetta er til dæmis bara eitt prósent af þeim kvóta sem var gefinn út fyrir þremur árum. En þetta er ekki alger loðnubrestur, eins og varð í fyrra, og einnig á árunum 2018 til 2020.
Það stefndi í að núna yrði einnig loðnubrestur en síðasta loðnuleit, sem lauk í gær, skilaði því að það fannst viðbótarloðna úti fyrir Vestfjörðum og eins undan vestanverðu Norðurlandi.

Hrygningarloðnan gengur venjulega niður með Austfjörðum og svo vestur með suðurströndinni. Aðalgangan er núna talin vera undan Selvogi og styttist í að hún hrygni. En svo hafa stundum komið vestangöngur niður með Vestfjörðum og breytt miklu.
Útgerðarmenn sem fréttastofan ræddi við síðdegis telja að það ætti að vera hægt að finna meiri loðnu. Þeir þrýsta á Hafrannsóknastofnun að leita betur og tala um sín á milli að skipuleggja eigin leit.
Tæplega fimm þúsund tonna kvóti er það lítill að það er vart hægt að tala um alvöru loðnuvertíð. Algengt er að loðnuskip komi með um eða yfir eitt þúsund tonn að landi þannig að í raun dygði að tvö skip færu tvær veiðiferðir hvort til að veiða allan íslenska kvótann.

Ólíklegt verður að telja að loðnuverksmiðjur verði almennt ræstar fyrir þetta litla magn heldur muni sjávarútvegsfyrirtækin reyna að hámarka verðmætin með sem minnstum tilkostnaði. Má telja víst að öll loðnan fari til manneldis á verðmætustu markaði. Sennilegast er að mest af henni verði heilfryst fyrir Asíumarkaði, eins og Japan. Með þeim hætti áætla sérfróðir menn í greininni að þessi örkvóti gæti skilað yfir eins milljarðs króna útflutningstekjum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: