Þetta hefur Al Jazeera eftir Basem Naim, embættismanni Hamas og fyrrverandi heilbrigðisráðherra Gaza.
„Við höfum sagt það mörgum sinnum, jafnvel fyrir 7. október, að við séum reiðubúin að yfirgefa stjórnvölinn yfir Gaza-ströndinni og leyfa hvaða palestínsku einingu, teknókrataríkisstjórn eða öðrum valkosti sem yrði valinn af Palestínubúum að taka við,“ sagði hann við miðilinn.
Naim sagði samtökin fagna hugmyndum Egypta um stofnun nefndar sem myndi stjórna Gaza alfarið og skipuleggja uppbyggingu svæðisins í samráði við nágrannaríki. Hamas-samtökin væru reiðubúin að láta umsvifalaust af stjórn yrði slík nefnd sett á fót.
Hamas-samtökin hefðu verið stofnuð sem Palestínsk andspyrnuhreyfing með skýr markmið, þar á meðal að losna undan hernámi Ísrael og ná fram bæði sjálfstæði og sjálfræði. Samtökin myndu halda áfram þeirri baráttu með hvaða hætti sem væri, hvort sem það væru vopnuð átök eða diplómatískar leiðir. Hamas myndu þá treysta nefndinni fyrir stjórn á daglegu lífi fólks, heilbrigðismálum, menntamálum og félagsmálum.