Skoðun

Hug­leiðing á konu­dag

Sigurður Ingi Arnars Unuson skrifar

Ég heiti Siggi, vinn í leikskóla, er í kór og er sískynja karlmaður. Mér er jafnrétti í samfélaginu hugleikið núna á konudaginn og langar að deila því með ykkur. Ég hef verið feministi síðan rétt eftir fermingu þegar ég fór að mæta á pönktónleika og kynnast þar róttækri pólitík, komast í ýmis smárit, bókmenntir um anarkisma og fleira. Það var lítið um samfélagsmiðla, ekkert youtube og facebook en fyrirmyndirnar fann ég á bloggsíðum og spjallborð voru vettvangur misgáfulegra en þó mikilvægra þroskandi umræðna.

Við þurfum að vera vel vakandi og ganga lengra í jafnréttisbaráttunni. Ég finn það sjálfur að þegar ég tala er oft hlustað af meiri athygli en ef kona segir sama hlutinn. Það virðist enn vera „betra“ að vera karlmaður en kona í okkar samfélagi. Í þeim tilvikum sem þær ná í gegn í umræðunni, lenda þær í margfalt meira andlegu ofbeldi fyrir að segja sína skoðun. Það er gert lítið úr þeim opinberlega og þeim send hatursfull skilaboð.

Nú eru konur komnar í allar helstu valdastöður í þjóðfélaginu og það er fallegt. Enn eru þó karlar við völd á mörgum sviðum, í efnahagslífinu, byggingamarkaði o.s.frv. Á mínum vinnustað eru yfir 90% konur og þar hef ég séð hvað konur hafa mikið til málanna að leggja.

Ég reyni að hafa hugfast að ég hef tvö eyru og einn munn og hlusta meira sjálfur. Ég fæ líka að baða mig í karllægum sjónarmiðum í mínum kór. Í öllu því félagsstarfi sem ég sinni, kynnist ég sem betur fer ólíku fólki með mismunandi lífsskoðanir. Ég vil búa í heimi þar sem við hlustum á öll kyn og nýtum rödd okkar til að hífa hvort annað upp

Gleðilegan konudag og takk fyrir baráttuna!

Höfundur er femínisti.




Skoðun

Sjá meira


×