Kadetten Schaffhausen er með örugga forystu á toppi svissnesku deildarinnar enda hafði liðið unnið nítján af tuttugu og einum deildarleik sínum fyrir leikinn gegn Basel í dag.
Sigurgangan hélt áfram hjá Kadetten því liðið vann öruggan 36-30 sigur á útivelli eftir að staðan hafði verið jöfn í hálfleik 15-15.
Óðinn Þór skoraði sex mörk úr sjö skotum fyrir toppliðið í dag sem er nú með ellefu stiga forskot á Kriens á toppnum en Kriens á reyndar tvo leiki til góða.
Í Þýskalandi vann Magdeburg mikilvægan 28-25 sigur á Göppingen. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon voru báðir fjarverandi hjá Magdeburg vegna meiðsla en liðið er með 25 stig í sjötta sæti deildarinnar en vinni liðið þá þrjá leiki sem það á til góða munar aðeins þremur stigum á þeim og toppliði Melsungen.