Fyrir leikinn í dag var Real Sociedad í 12. sæti spænsku deildarinnar en gat með sigri lyft sér vel upp töfluna og komið sér í baráttu um eitt af Evrópusætum deildarinnar en sex efstu liðin fá sæti í Evrópu á næsta tímabili.
Fimm efstu liðin eru ansi langt á undan næsta hóp þar á eftir og barátta Sociedad snýst því um að ná að minnsta kosti sjötta sætinu í deildinni.
Í leiknum geng Leganes í kvöld var Sociedad betra liðið nánast frá byrjun. Orri Steinn var í byrjunarliði heimamanna sem komust yfir strax á 12. mínútu þegar Rússinn Arsen Zakharyan kom þeim í forystu.
Takefusa Kubo tvöfaldaði forystu Sociedad strax í upphafi síðari hálfleiks og þriðja markið skoraði Jon Ander Olasagasti á 80. mínútu en Orri Steinn fór af velli tæpum stundarfjórðungi áður.
Lokatölur 3-0 og sigurinn fleytir liði Sociedad alla leið upp í 8. sætið deildarinnar og nú er liðið aðeins einu stigi á eftir Rayo Vallecano sem er í síðasta Evrópusætinu.
⏰ HT Real Sociedad 1-0 Leganés
— Radioestadio (@Radioestadio) February 23, 2025
🎙️ @alberlopezfrau: "La @RealSociedad ha tenido el balón muy bien en esta primera parte, sobre todo siendo profunda por banda izquierda. También me ha gustado Oskarsson, que poco a poco va creciendo en importancia en el equipo".
⬇️ Escucha el… pic.twitter.com/JrrVM7LUrn
Orri fékk hrós frá stuðningsmönnum á samfélagsmiðlum eftir leikinn og sögðu stuðningsmenn hann aðeins hafa þurft mark til að kóróna góða frammistöðu og að mikilvægi hans hjá liðinu væri sífellt að koma betur í ljós.