Handbolti

Sjötta tap Hauks og fé­laga í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk gegn Wisla Plock.
Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk gegn Wisla Plock. getty/Andrzej Iwanczuk

Wisla Plock hafði betur gegn Dinamo Búkarest, 26-27, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld. Haukur Þrastarson leikur með Dinamo Búkarest sem er í frjálsu falli í Meistaradeildinni.

Leon Susnja skoraði sigurmark Wisla Plock í leiknum í Búkarest í kvöld. Pólverjarnir hafa unnið þrjá leiki í röð í Meistaradeildinni. Viktor Gísli Hallgrímsson var fjarri góðu gamni hjá Wisla Plock í kvöld.

Haukur skoraði tvö mörk fyrir Dinamo Búkarest sem hefur tapað sex leikjum í röð í Meistaradeildinni.

Haukur gekk í raðir Dinamo Búkarest fyrir þetta tímabil en það verður líklega hans eina í Rúmeníu. Hann er sagður vera á förum til Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.

Przemyslaw Krajewski skoraði sjö mörk fyrir Wisla Plock og Gergö Fazekas fimm. Andrii Akimenko var markahæstur hjá Dinamo Búkarest með sex mörk.

Wisla Plock og Dinamo Búkarest eru jöfn að stigum í 5. og 6. sæti A-riðils. Bæði lið eiga einn leik eftir í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×