Hjónin greindu frá fregnunum í myndbandi á Facebook síðdegis. Í myndbandinu stendur parið úti í snæviþakinni víðáttu og segist hafa haldið dálitlu leyndu. Ása dregur svo upp sónarmynd af barninu og segir í myndatexta: „Fjölskyldan okkar er að stækka sumarið 2025. Hæ litla snjóbarn 🖐“
„Hólí mólí, við erum að verða fjögurra manna fjölskylda. Við getum ekki beðið eftir að hitta litla miðnætursólarbarnið okkar í sumar. Þetta hefur verið villt ferðalag til þessa og við erum svo tilbúinn fyrir þetta og að sjá Atlas verða stóra bróður,” skrifa hjónin við myndskeiðið.
Fyrir eiga þau soninn Atlas sem fæddist í ársbyrjun 2022.
Ferðaljósmyndari með milljón fylgjendur
Ása Steinars er einn stærsti áhrifavaldur Íslands og er með um 1,4 milljón fylgjendur á Instagram. Ása starfar við ljósmyndun og flakkar vítt og breitt um heiminn í starfi sínu og deilir því á samfélagsmiðlum sínum.
Ása var í Íslandi í dag árið 2019 og var þá með um 130 þúsund fylgjendur. Þrátt fyrir það var hún ekki sérlega þekkt hér á landi. Síðan þá hefur fylgjendafjöldinn margfaldast og hún orðið að þekktari stærð hér á landi.
Nýlega hefur Ása staðið í dómsmálum við bandaríska markaðsfyrirtækið Tripscout sem hafði notað og deilt efni hennar án hennar leyfis. Ása stefndi fyrirtækinu vegna brota á höfundarrétti og höfðaði fyrirtækið í kjölfarið gagnsókn á hendur henni. Gagnkröfum Tripscout var á endanum vísað frá en fyrra málið stendur enn yfir.