Innlent

Jakob nýr for­maður Raf­iðnaðar­sam­bandsins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Jakob Tryggvason er nýr formaður Rafiðnaðarsambandsins.
Jakob Tryggvason er nýr formaður Rafiðnaðarsambandsins. RSÍ

Jakob Tryggvason er nýr formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann hlaut tæp 73 prósent greiddra atkvæða á aukaþingi RSÍ en Ágúst Hilmarsson hlaut rúm 25 prósent atkvæða.

Þetta kemur fram á vef sambandsins, en aukaþingið fór fram í Gullhömrum í Grafarholti í dag.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem tók sæti á Alþingi á dögunum, hefur því látið af störfum sem formaður. Hann gegndi formennsku í um 14 ár.

Margrét Halldóra Arnarsdóttir hafði gefið kost á sér til formanns en tilkynnt var í upphafi þingsins um að hún hefði dregið framboð sitt til baka.

„Jakob hlaut standandi lófaklapp þegar forseti þingsins, Georg Páll Skúlason, las upp úrslitin,“ segir í tilkynningunni.

Í stuttu ávarpi mun Jakob hafa þakkað þinginu fyrir stuðninginn og hvatt til samstöðu. 

„Ég heiti því að gera mitt allra besta í starfi sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands,“ er haft eftir Jakobi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×