Skoðun

Þraut­reynd bar­áttu­kona fyrir auknum fjár­veitingum til Há­skóla Ís­lands

Ragný Þóra Guðjohnsen skrifar

Veljum Kolbrúnu Pálsdóttur sem rektor

Nú stendur fyrir dyrum rektorskjör við Háskóla Íslands og Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, er ein þeirra sem býður sig fram til embættisins. Ég styð framboð Kolbrúnar eindregið enda ætlar hún að beita sér af krafti fyrir auknum fjárveitingum til Háskóla Íslands líkt og hún hefur gert með árangursríkum hætti þau sjö ár sem hún hefur verið forseti Menntavísindasviðs.

Í framboði sínu hefur Kolbrún skýrt hvers vegna það skiptir höfuðmáli að styrkja fjárhag Háskólans. Í fyrsta lagi er það mikilvægt til þess að tryggja gæðamenntun í Háskóla Íslands á öllum námsstigum með fjölbreyttum námsleiðum þar sem áhersla er á margs konar námsform og hagnýt og skapandi verkefni. Í öðru lagi til þess að skapa aðlaðandi og áhugaverð starfskjör og starfsaðstæður fyrir starfsfólk Háskóla Íslands. Í þriðja lagi til þess að styðja betur við hagsmuni stúdenta, þróa námsstyrkjakerfi og aðstæður fyrir fjölbreyttan hóp stúdenta til að helga sig náminu. Í fjórða lagi til þess að efla rannsóknir, stórefla stuðning við styrkumsóknir rannsakenda, auka stuðning til doktorsnema og styðja uppbyggingu þverfræðilegrar rannsóknarmiðju í Vatnsmýri.

Ég hvet ykkur til þess að skoða stefnumál Kolbrúnar og víðtæka stjórnunarreynslu hennar hjá Reykjavíkurborg og við Háskóla Íslands. Ég hef starfað með henni á Menntavísindasviði og séð hana beita sér og láta gríðarlega mikilvæg samfélagsverkefni verða að veruleika. Í samvinnu við háskólayfirvöld, stjórnvöld, stéttar- og fagfélög og aðra hagsmunaaðila hefur Kolbrún átt virkan þátt í að efla kennaramenntun, fjölga útskrifuðum kennurum, koma á raunfærnimati, bæta fjárhag Menntavísindasviðs, auka tengsl sviðins við önnur svið Háskólans m.a. með sameiginlegum kennslustöðum, og undirbúa flutning sviðsins í Sögu. Til þess að ná slíkum árangri þarf samskiptahæfni, vilja til að hlusta á raddir annarra og leikni við að komast að sameiginlegum lausnum. Þessa hæfileika hefur x-Kolbrún.

Höfundur er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 




Skoðun

Sjá meira


×