Erlent

Stöðva allan vöru­inn­flutning inn á Gasa

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ramadan hófst á föstudag og stendur fram yfir miðjan apríl.
Ramadan hófst á föstudag og stendur fram yfir miðjan apríl. AP

Ísraelsstjórn hefur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem hún heitir því að stöðva allan flutning neyðargagna inn á Gasa. Stjórnin varaði Hamas við afleiðingum þess og þrýsti þar með enn fremur á samtökin að samþykkja tillögu um að lengja fyrsta fasa vopnahlésins á Gasa.

Fyrsta fasanum í fyrirhuguðu þriggja fasa vopnahléi lauk í gær. Í honum fólst lausn gísla í haldi Hamas og palestínskra fanga í haldi Ísraels. Viðræður um næsta áfanga vopnahlésins ganga hægt, en í tillögum um hann felst lausn tuga gísla úr haldi Hamas gegn því að Ísraelar dragi úr hernaði á Gasa. 

Ísraelsstjórn lagði í gær fram tillögu um að lengja fyrsta fasa um sex vikur, þannig að hann vari fram yfir Ramadan, gegn lausn fleiri gísla. Hamas höfnuðu tillögunni og sögðu hana brjóta gegn vopnahléssamkomulaginu. 

Sjá einnig: Fyrsti fasi vopnahlésins á enda og fram­tíðin ó­ljós

Samtökin segja fyrirhugaðar aðgerðir Ísraelsstjórnar um að stöðva innflutning ódýrt bragð og stríðsglæp sem gangi sýnilega í berhögg við vopnahléssamninginn, að því er kemur fram í umfjöllun AP. Ísraelskur embættismaður sagði við miðilinn að ákvörðunin hafi verið tekin í samstarfi við Bandaríkjastjórn.

Snemma í dag lagði Ísraelsstjórn fram aðra tillögu um að lengja fyrsta fasa vopnahlésins. Tillagan er sögð koma frá Steve Witkoff sendifulltrúa Donald Trump Bandaríkjaforseta. 

Sú tillaga felur í sér að Hamas afhendi helming þeirra gísla sem enn eru í haldi á fyrsta degi og þegar samkomulagi yrði náð um varanlegt vopnahlé verði síðustu gíslarnir afhentir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×