Vakthafandi hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir minnst fjóra dælubíla hafa verið að störfum í hinum öldum lamda vesturhluta borgarinnar í fleiri tíma og hefur að hans sögn flætt ofan í fleiri kjallara, kjallaraíbúðir og bílskúra með tilheyrandi tjóni.
Einn óheppinn veðuráhugamaður varð fyrir feyknaröldu á Granda. Til allrar hamingju er í himnalagi með bæði myndatökumann og síma en atvikið er þó góð áminning um að hafa varann á þegar Ægir minnir á sig.
Eins og greint var frá í gær fer Seltjarnarnesið oft illa út úr miklum sjógangi við háflóð og kemur það heim og saman við það sem skáldið sagði.
„Seltjarnarnesið er lítið og lágt þannig það er svolítið af sjó þar,“ segir vakthafandi.
Hann segir tvo dælubíla við störf við Sörlaskjól og Sveinsstaðarvörina, einn við Hrólfsskálavör úti á nesi og annan á Grandanum en eins og kom fram hefur sjór flætt og kaffært hringtorgið við Hringbraut.
Eitthvað virðist þó sem að lægt hafi sjóinn og vonir eru bundnar við að versti öldugangurinn sé staðinn yfir.