Meðal þeirra sextíu tillagna sem hagræðingarhópur skilaði af sér til ráðherra í gær er tillaga sem snýr að því að aðlaga lög um opinbera starfsmenn að almennum markaði. Ákvæði um áminningar í starfi sem undanfara brottreksturs verið fellt á brott í ákveðnum tilfellum. Með því myndist meiri sveigjanleiki fyrir ríkisstofnanir til að mæta breyttum aðstæðum.
Í kynningu á tillögunum er vísað til umsagnar Vegagerðarinnar, þar sem fram kemur að flókið og tímafrekt geti verið að sanna slaka frammistöðu starfsmanna eða óviðeigandi samskiptahætti sem hafi neikvæð áhrif á þjónustu stofnana, starfsfólk hennar eða bæði.

Hagsmunahópar í atvinnulífinu
Kolbrún Halldórsdóttir er formaður BHM. Innan raða bandalagsins er fjöldi opinberra starfsmanna.
„Þessar tillögur eru náttúrulega úti um allt og það er auðvitað eðlilegt, þegar þjóðinni er falið að koma með tillögur af þessu tagi. Ég efast ekkert um það að þessi starfshópur sem settur var á laggirnar, það hafi ekki verið öfundsvert hlutverk sem hann var í. En vissulega eru þarna tillögur sem koma greinilega frá hagsmunahópum í atvinnulífinu,“ segir Kolbrún.
Horfir til Norðurlanda
Umræða um afnám áminningarskyldunnar sé ekki ný af nálinni.
„En það sem er alvarlegt er auðvitað að það liggja engir útreikningar eða greiningar á bak við þessa tilteknu tillögu um þessa áminningarskyldu, og ekkert sagt um það hvað muni sparast í ríkiskerfinu ef þessi áminningarskylda verður afnumin.“
Áttu von á því að ríkisstjórnin taki þetta til greina og láti af þessu verða, eins og þetta birtist í tillögunum?
„Ég sé nú og heyri á yfirlýsingu forsætirsáðherra að hún sé þakklát fyrir tillögurnar, og að hún sé þakklát fyrir vinnu þessa starfshóps. Svo segir hún jafnframt að þetta verði allt tekið til skoðunar. Þessar tillögur, eins og þær koma frá starfshópnum, þær hafa ekkert fengið neina umfjöllun í ríkisstjórn enn þá. Þannig að við eigum bara eftir að spyrja að leikslokum í þeim efnum, og höfum sagt að við séum reiðubúin til þess að taka þátt í því samtali,“ segir Kolbrún.
„Ef fólk vill miða sig við Norðurlöndin þá er kannski sniðugra að jafna réttindin yfir allan markaðinn, það er að segja þeir sem hafa ákveðin réttindi sem eru talin skynsamleg á opinberum markaði, að það verði þá látið gilda um almenna markaðinn líka,“ segir Kolbrún.