Fótbolti

Stelpurnar okkar aftur í hæstu hæðum

Sindri Sverrisson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir og stöllur í íslenska landsliðinu eru í 13. sæti heimslistans, eftir að hafa meðal annars gert jafntefli við Sviss í síðasta mánuði.
Alexandra Jóhannsdóttir og stöllur í íslenska landsliðinu eru í 13. sæti heimslistans, eftir að hafa meðal annars gert jafntefli við Sviss í síðasta mánuði. Getty/Alex Nicodim

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er það 13. besta í öllum heiminum samkvæmt nýjasta styrkleikalista FIFA og hefur aldrei verið ofar.

Ísland komst upp í 13. sæti í fyrsta sinn í sögunni í fyrra en lauk árinu hins vegar í 14. sæti.

Á listanum sem birtur var í dag er Ísland komið á ný upp fyrir Ítalíu og í 13. sæti, eftir markalaust jafntefli við Sviss og 3-2 tap gegn Frökkum í tveimur útileikjum í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði.

Ísland mætir næst Noregi, 4. apríl, og eru þær norsku í 15. sæti eftir að hafa farið upp fyrir Ástralíu. Frakkland er í 11. sæti og Sviss er í 23. sæti.

Á EM í sumar verður Ísland, líkt og í Þjóðadeildinni, í riðli með Noregi og Sviss en einnig með Finnlandi sem er í 25. sæti nýja heimslistans.

Næstu lið fyrir ofan Ísland á listanum eru Danmörk í 12. sæti, Frakkland í 11. sæti og Holland í 10. sæti.

Japan fer upp um þrú sæti og er nú í 5. sæti listans en staða efstu liða er óbreytt. Bandaríkin eru á toppnum, Spánn í 2. sæti, Þýskaland í 3. sæti og England í 4. sæti.

Heimslista FIFA má skoða nánar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×