Enski boltinn

Segir að Amorim sé að „drukkna“ hjá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim hefur stýrt Manchester United í 25 leikjum. Ellefu þeirra hafa unnist, fjórir endað með jafntefli og tíu tapast.
Ruben Amorim hefur stýrt Manchester United í 25 leikjum. Ellefu þeirra hafa unnist, fjórir endað með jafntefli og tíu tapast. afp/ANDER GILLENEA

Jamie Carragher gefur Ruben Amorim ekki háa einkunn fyrir frammistöðu hans í starfi knattspyrnustjóra Manchester United. Hann segir að ekki einn leikmaður hafi bætt sig undir stjórn Amorims.

Portúgalinn tók við United af Erik ten Hag í nóvember eftir að hafa gert frábæra hluti með Sporting í heimalandinu. Ekki hefur gengið vel hjá Rauðu djöflunum síðan Amorim var ráðinn. United hefur aðeins unnið fimm af sextán deildarleikjum undir hans stjórn og var slegið út úr ensku bikarkeppninni um síðustu helgi.

Í pistli sínum í The Telegraph fer Carragher ekki beint fögrum orðum um fjögurra mánaða stjóratíð Amorims hjá United.

„Þetta er versta United lið sem ég man eftir. Það minnsta sem var hægt að búast við eftir að Amorim tók við var að liðið myndi líta út fyrir að vera betur þjálfað en það var hjá Ten Hag en það hefur ekki raungerst,“ skrifaði Carragher.

„Leikmenn United hafa ekki brugðist vel við aðferðum hans. Hefur einhver leikmaður litið út fyrir að vera betri en hjá Ten Hag? Það er synda eða sökkva hjá einu stærsta félagi heims og núna er Amorim að drukkna í öldugangi meðalmennsku.“

Carragher bendir á nokkra stjóra sem hafa gert góða hluti hjá liðum í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa tekið við í erfiðri stöðu. Hann nefnir þar meðal annars Oliver Glasner, David Moyes og Nuno Espírito Santo.

United tekur á móti Arsenal á sunnudaginn. Rauðu djöflarnir eru í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×