Enski boltinn

Sex leikja bann fyrir brotið á Mateta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liam Roberts spilar ekki aftur með Millwall fyrr en í fyrsta lagi 12. apríl.
Liam Roberts spilar ekki aftur með Millwall fyrr en í fyrsta lagi 12. apríl. ap/Ian Walton

Liam Roberts, markvörður enska B-deildarliðsins Millwall, hefur verið úrskurðaður í sex leikja bann fyrir brotið grófa á Jean-Philippe Mateta, framherja Crystal Palace, í bikarleik liðanna um síðustu helgi.

Mateta þurfti að fara á sjúkrahús þar sem saumuð voru 25 spor í eyra hans eftir að Roberts fór með fótinn í andlit hans í leik Palace og Millwall á laugardaginn. Palace vann leikinn, 3-1.

Michael Oliver rak Roberts af velli, þó ekki fyrr en VAR-dómari leiksins lét hann skoða atvikið á myndbandi.

Venjan er að leikmenn sem fá beint rautt spjald fari sjálfkrafa í þriggja leikja bann. Enska knattspyrnusambandinu fannst það hins vegar ekki nógu mikil refsing fyrir Roberts og vildi herða hana. 

Óháður dómstóll fór eftir þeim tilmælum og bætti þremur leikjum við bann Roberts. Hann missir því af næstu sex leikjum Millwall.

Roberts sagðist vera niðurbrotinn eftir leikinn og hafði strax samband við Mateta eftir hann. Mateta er á góðum batavegi en spilar þó ekki með Palace í leiknum gegn nýliðum Ipswich Town á morgun. Palace er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Roberts missir af leikjum gegn Watford, Leeds United, Stoke City, Sunderland, Portsmouth og Sheffield United. Hann spilar í fyrsta lagi 12. apríl þegar Millwall fær Middlesbrough í heimsókn.


Tengdar fréttir

Oliver kældur eftir Mateta-atvikið

Dómarinn Michael Oliver mun ekkert dæma í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Hann gerði sig sekan um mistök í bikarleik Crystal Palace og Millwall um helgina.

Mateta líður vel þrátt fyrir tæklingu í and­litið

Jean-Philippe Mateta, framherji Crystal Palace, er á batavegi eftir að enda upp á spítala eftir stórundarlega tæklingu markvarðarins Liam Roberts þegar Palace lagði Millwall í enska bikarnum í dag. Tæklingin hefði getað stórslasað framherjann og jafnvel endað feril hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×