Innlent

Hljóti að styttast í gos og vonar að það komi sem fyrst

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá eldgosinu við Sundhnjúka í nóvember 2024.
Frá eldgosinu við Sundhnjúka í nóvember 2024. Vísir/Vilhelm

Enn eru taldar auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Reykjanesi, en landris heldur áfram. Eldgos gæti hafist með mjög skömmum fyrirvara en líklegast þykir að kvika kæmi fyrst upp á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Benedikt Ófeigsson náttúruvársérfræðingur telur að nú sé lokakafl eldsumbrota á Sundhnúksgígaröðinni líklega hafinn.

„Ég held það hljóti nú að styttast í gos. Landrisið er alla veganna komið yfir öll fyrri mörk og þó það sé hægara þá heldur það alveg áfram. Við erum að sjá þannig séð tiltölulega hratt landris þó að það hafi verið hraðar í upphafi en spurningin er hvenær, við eigum eiginlega von á því hvenær sem er en eitthvað ætlar þetta að láta bíða eftir sér,“ segir Benedikt. „Við þurfum bara að vera þolinmóð og vona að þetta komi sem fyrst.“

Benedikt Ófeigsson náttúruvársérfræðingur.Vísir/Arnar

Heldurðu að það fari að sjá fyrir endann á þessum atburði?

„Við höfum alveg klárlega séð þróunina síðasta árið, að það er að hægja á atburðarásinni. Landrisið núna er miklu hægara en það var í upphafi fyrir rúmu ári síðan og sömuleiðis breytingar í því hvernig skjálftavirknin er að haga sér, hún er að minnka. Þannig já, það eru vísbendingar í gögnunum að þetta sé kannski á seinni hlutanum og ég á ekki von á að það séu mörg ár eftir miðað við innflæðið eins og það er núna,“ segir Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×