Sport

Rotaðist eftir að hafa dottið í miðju hlaupi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hugað var að Maureen Koster eftir að hún rotaðist í úrslitum í þrjú þúsund metra hlaupi á EM í gær.
Hugað var að Maureen Koster eftir að hún rotaðist í úrslitum í þrjú þúsund metra hlaupi á EM í gær. ap/Patrick Post

Hollenska hlaupakonan Maureen Koster rotaðist eftir að hún datt á brautina í úrslitum í þrjú þúsund metra hlaupi á Evrópumótinu innanhúss í Apeldoorn.

Koster féll við eftir að hafa flækst utan í tvo aðra keppendur snemma í hlaupinu og skall með höfuðið í hlaupabrautina.

Hún rotaðist og lá eftir á brautinni meðan aðrir keppendur héldu áfram að hlaupa. Koster var á endanum færð burt á börum. Hugað var að Koster á Omnisport vellinum en hún var síðan flutt á spítala.

Hollenska frjálsíþróttasambandið greindi síðan frá því að Koster væri með meðvitund.

Sarah Healy frá Írlandi kom fyrst í mark en hin enska Melissa Courtney-Bryant varð önnur. Hún þekkir vel til Kosters og hugur hennar var hjá henni eftir hlaupið. 

„Hún er mjög góð vinkona mín. Ég þekki hana mjög vel því við æfðum saman. Við erum venjulega herbergisfélagar á Demantamótum og erum mjög nánar,“ sagði Courtney-Bryant.

„Ég sá ekki neitt en heyrði hana öskra svo ég vissi að þetta var hún. Ég hugsaði bara: Þetta var Maureen sem féll við. Allir voru á nálum eftir þetta. Vegna þess að hún var á heimavelli brugðust áhorfendur svona sterklega við og allir voru stressaðir út af þessu. Mig langaði í medalíu en ég hefði gjarnan viljað að hún hefði unnið til verðlauna á heimavelli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×