Skoðun

Halla hlustar

Benedikt Ragnarsson skrifar

Ég hef verið félagi í VR í áratugi og hef séð marga formenn koma og fara. Það er hins vegar langt síðan ég hef fylgst með jafn öflugri forystu og með Höllu Gunnarsdóttur í formannsembættinu. Hún er málefnaleg og stendur vel undir því að vera flottur foringi í okkar stóra verkalýðsfélagi. Ég hlakka til að kjósa hana og fylgjast áfram með henni og brýna hana til góðra verka.

Við launafólk sem erum nú á efri árum eigum fæst digra sjóði, hvorki í lífeyrissjóðnum okkar né séreignasjóðum, hvað þá inni á bankabók. Okkar stærsta eign er iðulega húsnæðið okkar og við getum átt sæmilega áhyggjulaust ævikvöld ef við eigum það skuldlaust. Húsnæðismálin fylgja okkur því alla ævi og þess vegna verður að vera þungi í þeim málaflokki. Við eldri félagar í VR getum oft minnkað við okkur húsnæði þegar við hættum að vinna og notað það sem á milli er til að létta okkur lífið á efri árum. En til þess þarf að tryggja raunverulegt framboð af góðu og hentugu húsnæði fyrir eldra fólk, sem um leið verður til þess að losa um stærri eignir fyrir yngra fólk. Þessi barátta er eitt stærsta viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar núna.

Ég treysti Höllu til að leiða þennan málaflokk, eins og aðra. Hún hefur sýnt kjörum okkar sem eldri eru ríkan skilning og hún kann að knýja á um breytingar. Ég kýs Höllu sem formanninn minn, því hún hlustar og hún framkvæmir.

Höfundur er félagi í trúnaðarráði VR.




Skoðun

Sjá meira


×