Variety greinir frá því að serían sé í bígerð. Svo virðist vera sem um beint framhald af Verbúðinni sé að ræða, en sú sería sló í gegn þegar hún var sýnd í Ríkissjónvarpinu jólin 2021 og út janúar 2022. Þættirnir fjölluðu um vini sem búa vestur á fjörðum og fara í sjávarútvegsbransann árið 1983, á sama tíma og kvótakerfið er að verða til.
Söguþræði framhaldsseríunnar er lýst í umfjöllun Variety. Þar segir að þegar ríkisstjórn Íslands leitist við að endurheimta nýlega einkavæddan fiskikvóta átti kvótaeigandinn Harpa Sigurðardóttir sig á því að eina leiðin til að tryggja eignarhald sitt á kvótanum í sessi sé sú að eignast banka. Það reynist þrautin þyngri.
Nína Dögg Filippusdóttir mun aftur fara með hlutverk Hörpu. Þá munu Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson og Mikael Torfason sjá um handrit og leikstjórn líkt og í fyrri seríunni.
Francesco Capurro stjórnandi hátíðarinnar Series Mania eys lofi yfir þá Gísla og Björn hlyn í umfjöllun Variety. Hann segir þá mikil hæfileikabúnt sem hafi getuna til þess að segja staðbundnar sögur sem heilli þvert á landamæri.